top of page
  • Writer's pictureAdm

Rétturinn til viðgerðar og staða Íslands


Þú hefur örugglega rekist á þetta vandamál nokkrum sinnum í lífinu. Síminn sem þú safnaðir fyrir virkar skyndilega ekki. Lyklaborðið á tölvunni þinni festist við ákveðinn bókstaf. Spurningin liggur á vörunum þínum: Kaupi ég nýja uppþvottavél eða læt ég gera við hana? Oftar en ekki er ódýrara fyrir þig að urða ónýta hlutinn og kaupa nýjan, sérstaklega ef kostnaðurinn við viðgerðir er hærri en að kaupa nýja vöru.


Í flestum tilfellum viljum við viljum halda í hlutina okkar og gefa þeim gott líf. Það er rökrétt og umhverfisvænt. Árlega er um 35 milljónum tonna af nothæfum vörum hent innan ESB, samkvæmt Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins.Til þess að við séum í stakk búin til að gera við hlutina okkar þurfa ákveðnar forsendur að vera til staðar. Hlutirnir þurfa að vera vel hannaðir, varahlutir og upplýsingabæklingar þurfa að vera aðgengilegir og viðgerðir þurfa að vera ódýrari en kaup á nýjum hlut.


Þetta er kjarninn í réttinum til viðgerðar.


Þann 22. mars síðastliðinn samþykkti Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins ályktun sem felst í að stuðla að aukinni viðgerðarhæfni varnings. Ályktunin á enn eftir að fara í gegnum þríhliða viðræður ESB áður en hún er samþykkt, en gefur góða mynd af stefnu ESB. Í ályktuninni felst að neytendur eigi að geta gert tilkall til viðgerða á ákveðnum vörum innan lagaramma ESB, koma eigi á fót nýjum evrópskum gæðastaðli fyrir viðgerðarþjónustur auk þess að gagnsæi viðgerða á að vera aukið með tilkomu viðgerðarvettvöngum á netinu, til að nefna nokkur dæmi. Enn er óvíst hvort að ályktunin nái til Íslands vegna umdæmi ESB.


Þrátt fyrir þessi jákvæðu skref hafa félagasamtökin Right To Repair gert þónokkrar athugasemdir við ályktunina. Þar ber helst að nefna þá gagnrýni að ályktunin stuðli ekki að nógu róttækum aðgerðum til þess að gera viðgerðir aðgengilegar og hagkvæmar.


En hvar stendur Ísland þegar kemur að réttinum til viðgerðar?


Skýrsla umhverfis- og auðlindaráðherra, Í átt að hringrásarhagkerfi, bendir á mikilvægi viðgerða í hringrásarferli hluta. Ein aðgerða sem stungið er upp á til þess að auka endurnýtingu hluta felur í sér að styrkja viðgerðar- og viðhaldsþjónustur.


Það eru frábærar fréttir! En hvað þýðir það?


Í stuttu máli stakk ráðuneytið upp á tveimur aðgerðum sem byggja á skattaívilnunum og fól starfshópi það verkefni að meta fýsileika aðgerðanna.


Starfshópurinn skilaði af sér matsskýrslu þann 10. mars, þar sem kom fram að þessar aðgerðir ættu ekki að vera innleiddar. Rökstuðningurinn á bak við þá ákvörðun byggir á þeirri staðreynd að erfitt sé að fylgjast með hvaða vörur falli undir skattaívilnun. Að sama skapi væri erfitt að fylgjast með einstaka heimildum við skilum á skattskýrslum.


Samt sem áður er þetta einungis mat, og erfitt að segja til um hver niðurstaðan verður.


Eins og staðan er núna þarfnast rétturinn til viðgerðar stuðnings. Þú getur lagt þitt af mörkum með því að kaupa kort hjá þínu hringrásarsfni og Reddingakaffi. Einnig munu félagasamtökin Saman Gegn Sóun boða til fræðslufundar um viðgerðarmenningu raftækja, þann 24. maí í Góða Hirðinum.Grein eftir: Jóhannes Bjarkason95 views0 comments

Recent Posts

See All

Commentaires


bottom of page